Fánasmiðjan mun rísa upp úr öskunni !

skrifað 09. júl 2012

 

 

Stjórn Fánasmiðjunnar kom saman á föstudaginn og fór yfir það gífurlega tjón sem verksmiðjan varð fyrir í eldsvoða 24. júní sl. Frekar en að gefast upp þá ákvað stjórnin að blásið yrði í lúðrana og fyrirtækið byggt upp aftur með glæsibrag.  Ákveðið var að auka hlutaféð og kaupa ný og  fullkomnari tæki en áður voru í verksmiðjunni. Einnig var ákveðið að bæta  við fleiri framleiðsluflokkum en það mun koma í ljós um áramótin þegar reiknað er með að starfsemin verði komin í fullan gang  á sama stað og hún var þ.e. 2.h. í Norðurtangahúsinu. Nú er hins vegar búið að flytja starfsemina niður á 1. hæð í Norðurtangahúsinu, gengið inn sjávarmegin fyrir miðju, og er starfsemin komin á fullt skrið.  Byrjað er að silkiprenta á stóru prentvélina en hún slapp í brunanum ásamt tilheyrandi búnaði.

Fatamerkingar og aðrar merkingar verða komnar í gang eftir tvær vikur og svo verða nýju diggitalprentararnir komin í gang eftir verslunarmannahelgi.

Tekið verður á móti pöntunum í allar prentanir og merkingar nú þegar, þó afgreiðsla pantana verði samkvæmt ofangreindu. Við viljum þakka viðskiptavinum okkar kærlega fyrir biðlundina sem þeir hafa sýnt okkur í þessum vandræðum, en við erum nú farin að afgreiða þær pantanir sem lágu fyrir.